Affordable Access

Samanburður á meðferð og horfum sjúklinga með bráða kransæðastíflu á Landspítalanum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur árið 1996

Authors
Journal
Læknablaðið
0023-7213
Publisher
Laeknabladid/The Icelandic Medical Journal
Publication Date
Keywords
  • KransæðAstífla
  • Hjartasjúkdómar

Abstract

Inngangur: Meðferð sjúklinga eftir bráða kransæðastíflu fer að nokkru eftir tækjabúnaði sjúkrahússins sem sjúklingar leggjast inn á við greiningu. Á Íslandi eru kransæðavíkkanir og -hjáveituaðgerðir aðeins framkvæmdar á Landspítala Hringbraut. Við bárum saman meðferð og horfur sjúklinga með brátt hjartadrep árið 1996 á Sjúkrahúsi Reykjavíkur (SHR) annars vegar og Landspítalanum (LSP) hins vegar. Efniviðir og aðferðir: Upplýsingum var safnað afturskyggnt um alla sjúklinga sem fengu greininguna brátt hjartadrep á Landspítalanum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur árið 1996. Dánartíðni, fjöldi endurinnlagna vegna hjartasjúkdóma og notkun kransæðavíkkana eða -hjáveituaðgerða á fyrsta ári eftir innlögn voru borin saman milli sjúkrahúsanna. Niðurstöður: Eins árs dánarhlutfall á Landspítalanum var 17,7% en 20,8% meðal sjúklinga á Sjúkrahúsi Reykjavíkur (p=0,55). Sjúklingar á Landspítalanum útskrifuðust í 82% tilvika á asetýlsalisýlsýru og í 68% tilvika á ß-hamla á móti 71% og 57% tilvika á Sjúkrahúsi Reykjavíkur (p=0,021 og p=0,028). Hins vegar útskrifuðust sjúklingar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur í 29% tilvika á kalsíumhamla og í 76% tilvika á nítrötum borið saman við 16% og 51% á Landspítalanum (p=0,004 og p<0,001). Ekki reyndist munur á notkun segaleysilyfja, angíótensín breyti (converting) ensím- hamla, digoxíns, þvagræsilyfja eða lyfja við hjartsláttartruflunum. Sjúklingar á Landspítalanum fóru í 32% tilvika í kransæðavíkkun innan árs á móti 13% tilvika á Sjúkrahúsi Reykjavíkur (p<0,001). Sjúklingar á Landspítalanum fóru í 10% tilvika í kransæðahjáveituaðgerð innan árs á móti 11% á Sjúkrahúsi Reykjavíkur (p=0,75). Meðalbiðtími sjúklinga Sjúkrahúsi Reykjavíkur eftir kransæðavíkkun reyndist um 10 dögum lengri en á Landspítalanum (p=0,001). Umræða: Ekki reyndist tölfræðilega marktækur munur á eins árs dánartíðni sjúklinga á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Landspítalanum 1996 þrátt fyrir mun meiri notkun kransæðavíkkana, asetýlsalisýlsýru og ß-hamla. Hins vegar gæti meiri notkun nítratlyfja og kalsíumhamla sjúklinga við útskrift af Sjúkrahúsi Reykjavíkur bent til að þeir hefðu meiri einkenni kransæðasjúkdóms við útskrift. Við teljum óeðlilegt að sjúklingar með brátt hjartadrep hafi fengið mismunandi meðferð eftir því hvort þeir lögðust inn á Sjúkrahús Reykjavíkur eða Landspítalann. Þessi munur kallar á aukna samhæfingu í starfsemi hjartadeilda sjúkrahúsanna og gerð klínískra leiðbeininga.

There are no comments yet on this publication. Be the first to share your thoughts.