Affordable Access

Viðhorf Íslendinga til framkvæmdar endurlífgunar utan sjúkrahúss

Authors
Publisher
Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur
Publication Date
Keywords
  • Endurlífgun

Abstract

Inngangur: Skyndidauði er í meirihluta tilfella vegna sleglahraðtakts (ventricular tachycardia) eða sleglaflökts (ventricular fibrillation). Grunnendurlífgun með öndunaraðstoð og hjartahnoði ásamt raflostsmeðferð geta verið lífsbjörg undir slíkum kringumstæðum. Undanfarin ár hefur gætt tregðu meðal almennings erlendis við að taka þátt í endurlífgun hjá ókunnugum utan sjúkrahúss. Á það sérstaklega við munn við munn öndunaraðstoðina og er mikilvægasta ástæðan ótti við smitsjúkdóma. Viðhorf Íslendinga til endurlífgunar hjá ókunnugum utan sjúkrahúss er ekki þekkt. Tilgangur: Markmið þessarar rannsóknar var að kanna viðhorf almennings á Íslandi til endurlífgunar utan sjúkrahúss með áherslu á viðhorf til munn við munn öndunaraðstoðar. Jafnframt vildum við kanna hvort það myndi breyta einhverju um þátttöku almennings í endurlífgun á ókunnugum ef slíkt fæli eingöngu í sér hjartahnoð en ekki munn við munn öndun. Efniviður og aðferðir: Gerð var símakönnun þar sem átta spurningar voru lagðar fyrir slembiúrtak einstaklinga í þjóðskrá á aldrinum 16-75 ára. Upphaflegt úrtak var 1200 manns, 804 svöruðu og svarshlutfall var því 70,1%. Niðurstöður: Stór hluti aðspurðra hafði hlotið tilsögn í framkvæmd hjartahnoðs (69%) og munn við munn öndunar (73%). Hins vegar höfðu fáir (6%) tekið þátt í tilraun til endurlífgunar. Af þeim sem tóku afstöðu treystu 394 (50%) sér til að framkvæma hjartahnoð hjá ókunnugum úti á götu og 491 (65%) myndi líklega gefa sig fram til að framkvæma hjartahnoð. Hvað varðar munn við munn öndunaraðstoð, treystu 417 (55%) sér vel til að framkvæma slíkt og 473 (63%) myndu líklega gefa sig fram til að framkvæma munn við munn öndun. Mest kom á óvart að það skipti ekki máli fyrir þátttöku 81% aðspurðra í endurlífgun hvort framkvæmdin fæli eingöngu í sér hjartahnoð eða bæði hnoð og munn við munn öndun. Ályktun: Íslendingar virðast almennt mjög jákvæðir gagnvart því að taka þátt í endurlífgun hjá ókunnugum utan sjúkrahúss. Margir hafa hlotið tilsögn í grunnendurlífgun og það skiptir ekki máli fyrir þátttöku þeirra hvort ferlið sé einfaldað á þann hátt að það feli eingöngu í sér hjartahnoð en ekki munn við munn öndunaraðstoð.

There are no comments yet on this publication. Be the first to share your thoughts.

Statistics

Seen <100 times
0 Comments