Affordable Access

Sérhæfð endurlífgun utan sjúkrahúsa á Reykjavíkursvæðinu 1991-1996

Authors
Journal
Læknablaðið
0023-7213
Publisher
Laeknabladid/The Icelandic Medical Journal
Publication Date
Keywords
  • Endurlífgun
  • Hjartastopp

Abstract

Neyðarbíll hefur sinnt bráðasjúkratilfellum utan sjúkrahúsa á Stór-Reykjavíkursvæðinu frá 1982. Í áhöfn bílsins er reyndur aðstoðarlæknir og tveir sérþjálfaðir sjúkraflutningamenn sem fylgja leiðbeiningum ameríska hjartafélagsins um meðferð við hjarta- og öndunarstöðvun. Breytingar urðu á leiðbeiningunum 1986 og var þá meðal annars lagst gegn því að nota bíkarbónat og kalsíum sem fyrstu lyf í endurlífgun. Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að meta árangur sérhæfðra endurlífgunartilrauna (advanced cardiac life support) áhafnar neyðarbílsins á árunum 1991-1996 og áhrif af tilraunum nærstaddra til endurlífgunar. Einnig að bera þennan árangur við niðurstöður fyrri rannsókna á endurlífgunartilraunum utan sjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu. Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var framskyggn og var gögnum safnað eftir Utstein staðlinum. Á árunum 1991-1996 voru framkvæmdar tilraunir til endurlífgunar á 361 einstaklingi með hjarta- og öndunarstöðvun. Í 53 tilvikum var um að ræða slys, sjálfsvíg, drukknun, ofneyslu lyfja eða vöggudauða. Í 308 tilvikum var frumástæða skyndilegrar hjarta- og öndunarstöðvunar rakin til hjartasjúkdóms í samræmi við Utstein skráningarkerfið. Niðurstöður: Í þessum 308 tilvikum reyndist meðalaldurinn vera 67,2 ár og hlutfall karla og kvenna 232:75. Meðalútkallstími var 4,6 mínútur. Níutíu og átta (31%) sjúklingar voru lagðir inn á gjörgæslu eða hjartadeildir og af sjúkrahúsi útskrifaðist 51 (17%). Sleglatif (ventricular fibrillation) og/eða sleglahraðtaktur (ventricular tachycardia) var algengasta takttruflun á fyrsta hjartariti og greindist hjá 176 (57%) einstaklingum. Rafleysa (asystole) greindist hjá 91 (30%) og aðrar hjartsláttartruflanir hjá 41 (13%). Fjörtíu og sex (26%) þeirra sem höfðu sleglatif útskrifðust af sjúkrahúsi, þrír (3%) með rafleysu og tveir (5%) með aðrar hjartsláttartruflanir. Nærstaddir voru vitni að hjarta- og öndunarstöðvun hjá 211 (68%) og jók það líkur á útskrift fjórfalt (OR 4,0; 95% CI 1,5-10,4; p=0,0025). Enginn tölfræðilegur munur var á útkallstíma og árangri endurlífgana í samanburði við fyrri rannsóknir á árunum 1982-1986 og 1987-1990. Ályktanir: Þegar vitni er að skyndilegri hjarta- og öndunarstöðvun aukast líkur margfalt á því að sjúklingur lifi áfallið af. Árangur endurlífgunartilrauna utan sjúkrahúsa á Reykjavíkursvæðinu er góður og með því besta sem gerist. Breytingar á leiðbeiningum um sérhæfða endurlífgun virðast ekki hafa aukið lífslíkur.

There are no comments yet on this publication. Be the first to share your thoughts.

Statistics

Seen <100 times
0 Comments