Affordable Access

Greiningar og meðferðarúrræði 102 barna og unglinga sem komu til barna- og unglingageðdeildar Landspítalans vegna ofvirknieinkenna frá 1. júní 1998 til 31. maí 1999

Authors
Journal
Læknablaðið
0023-7213
Publisher
Laeknabladid/The Icelandic Medical Journal
Publication Date
Keywords
  • Ofvirkni
  • Athyglisbrestur
  • Barna Og Unglingadeild Landspítalans
  • Bugl
  • Unglingar
  • Börn
  • LyfjameðFerð

Abstract

Tilgangur: Greining og meðferð við ofvirkniröskun hefur aukist mjög á undanförnum árum. Lítið er vitað um meðferðarhefðir hér á landi. Rannsóknin lýsir lyfja- og sálfélagslegri meðferð hjá hópi barna sem vísað var til ofvirknimóttöku við göngudeild barna-og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL). Jafnframt voru greiningar og fylgiraskanir skoðaðar. Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og tekur til 102 barna og unglinga á aldrinum 3-15 ára sem komu til athugunar vegna ofvirkni eða gruns um ofvirkni á göngudeild BUGL á tímabilinu 1. júní 1998 til 31. maí 1999. Greiningarviðtal við foreldra var byggt á ICD-10 (International Statistical Classification of Diseases and Related Health Problems, 10th revision) greiningarskilmerkjum, stuðst var við staðlaða hegðunarmatskvarða sem útfylltir voru af foreldrum og kennurum, vitsmunaþroski barnsins var metinn og læknisskoðun gerð með tilliti til líkamlegs og andlegs ástands. Niðurstöður: Alls greindust 72 börn með ofvirkniröskun. Algengasta fylgiröskunin var mótþróaþrjóskuröskun bæði í þeim hópi barna sem greindist með ofvirkniröskun og þeim sem fengu aðra fyrstu greiningu. Hjá umtalsverðum hluta hópsins greindust einnig tilfinningaraskanir. Algengast var að lyfjameðferð væri hafin milli fjögurra og átta ára aldurs. Amitriptýlín og metýlfenýdat voru oftast valin sem fyrsta meðferð en önnur lyf voru mun sjaldnar notuð og hjá 35% barnanna hafði lyfjameðferð ekki verið reynd. Við komu voru 56 börn á lyfjameðferð og 11 þeirra fengu fleiri en eitt lyf. Algengasta sálfélagslega meðferðarúrræðið var að bjóða foreldrum upp á sérstök ráðgjafarviðtöl. Næst algengast var meðferðartilboð um þjálfunarnámskeið og fræðslunámskeið. Ályktanir: Umtalsverður hluti þeirra barna sem vísað var til göngudeildar BUGL vegna gruns um ofvirkni uppfyllti ekki greiningarskilmerki um ofvirkniröskun. Notkun þríhringlaga þunglyndislyfja í byrjun meðferðar virðist ennfremur mun algengari en víðast hvar erlendis. Ástæðan er óljós en kann að vera há tíðni fylgiraskana eða einstaklingsbundið val þeirra lækna sem í hlut eiga.

There are no comments yet on this publication. Be the first to share your thoughts.