Affordable Access

Blóðsparnaður við skurðaðgerðir

Authors
Publisher
Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur
Publication Date
Keywords
  • BlóðGjöf

Abstract

Með uppgötvun Landsteiners á ABÓ blóðflokkakerfinu um síðustu aldamót og Rhesuskerfinu (Landsteiner, Wiener) um 1940 opnuðust leiðir til öruggari blóðgjafa. Samfara stofnun blóðbanka á fimmta og sjötta áratugnum áttu sér stað miklar framfarir í skurðlækningum. Nú var hægt að framkvæma stærri og vandasamari aðgerðir, sem höfðu meira blóðtap í för með sér en áður þekktist. Snemma varð ljós sú hætta, sem stafaði af smitsjúkdómum og mótefnamyndun samfara blóðgjöfum, en hún hvarf að nokkru leyti í skugga þeirra staðreynda, að með blóðgjöfum var hægt að bjarga mörgum mannslífum, til dæmis eftir meiriháttar áverka, blæðandi meltingarfærasjúkdóma og stærri skurðaðgerðir. Á síðustu árum hafa ýmsir höfundar greint frá ónæmisbælingu (immune suppression) í kjölfar blóðgjafa. Þeir hafa sýnt fram á aukna tíðni krabbameinsendurtekningar á lungna-og ristilkrabbameini hjá sjúklingum, sem hafa gengist undir skurðaðgerðir og þurft á blóðgjöf að halda, samanborið við þá, sem enga blóðgjöf fengu (1-6). Bent hefur verið á aukna tíðni sýkinga hjá sjúklingum, sem hafa þurft á framandi blóði að halda, miðað við þá, sem ekkert þurftu (7). Samfara fjölgun eyðnitilfella (AIDS) á síðustu árum og vitneskju um smitun þess sjúkdóms með blóðgjöfum eða gjöfum blóðhluta hefur umræða um blóðgjafir og aukaverkanir þeirra aukist. Eyðnismit er einungis toppur borgarísjakans. Þannig var til dæmis gert ráð fyrir fjórum eyðnismitum eftir blóðgjafir í Vestur-Þýskalandi árið 1987, en 28.000 lifrarbólgusmitum af óþekktum uppruna (non A, non B) sem rekja mátti til blóðgjafa, og er þá gert ráð fyrir 700.000 blóðþegum (8). (Sjá töflu I. Áhættuþættir samfara gjöf framandi blóðs (9-11)). Leitað hefur verið nýrra leiða og/eða eldri aðferðir verið endurbættar í því skyni að draga úr notkun framandi blóðs og auka þess í stað notkun á eigin blóði sjúklings: Sjálfgjöf blóðs (Autologous transfusion). Í þessari grein verður skýrt frá helstu möguleikum til blóðsparnaðar og greint frá eigin reynslu.

There are no comments yet on this publication. Be the first to share your thoughts.

Statistics

Seen <100 times
0 Comments